Leir 7

Icelandic ceramic Icelandic pottery

Íslenski leirinn

Leir myndast í jörðu á löngum tíma. Hluti af Íslandi var eitt sinn sjávarbotn og þegar unnið er keramik (brenndur leir) úr íslenska leirnum myndast saltútfellingar sem geta sett mark sitt á yfirborðið. Að auki verður liturinn breytilegur á dökkum rauðbrúnum skala sem má skýra með miklu járninnihaldi sem er eitt af sérkennum íslenska leirsins.

Hér á landi má víða finna leir og segja örnefni oft til um hvar hann liggur. Leirinn er þó misnýtilegur til að vinna úr honum keramik, en í Dalasýslu er að finna eitt af helstu leirsvæðum landsins. Leir getur þó verið að finna víða en rannsóknir hafa beinst að vesturlandi í gegnum tíðina. Saga keramiks á Íslandi er þó mjög stutt, en 1930 hóf Guðmundur Einarsson frá Miðdal að nýta leirinn í sín verk. Engar heimildir benda til að íslenskur leir hafi verið nýttur fyrr sem er athyglisvert m.v. óralanga sögu keramiks.

Leir 7 er stofnað með það markmið að nýta íslensk jarðefni í framleiðslu á sinni vöru. Leirinn er fenginn úr Ytri-Fagradal á Skarðsströnd í Dalasýslu og er því ekki löng leið í Stykkishólm með hráefni.

Leirgröfin í Ytri - Fagradal 

Bændur í Ytri-Fagradal eru Halla Steinólfsdóttir og Guðmundur Gíslason. Þau frumvinna leirinn fyrir leir 7, grafa hann upp og sigta í jafna kornastærð. 

 
Halla Steinólfsdóttir frá Ytri - Fagradal og Sigríður Erla í Leir 7.

Í leir 7 er leirinn er notaður í formi leirmassa, bæði steyptur í gipsmót og einnig mótaður á hefðbundinn hátt. Leirinn er brenndur upp að 1150°C og hefur hann þá náð hámarksstyrk.
Leirinn frá Fagradal má einnig nota sem glerung. Leir 7 framleiðir bolla sem steyptir eru úr postulíni, glerjaðir með leirnum og brenndir við 1260°C. Þannig næst dökkur brúnn litur og mjúk áferð sem hentar drykkjarílátum vel.
Sérfræðingur við Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur efnagreint leirinn frá Fagradal og sýna niðurstöðurnar að leirinn sem leir 7 notar hentar afar vel í eldunarílát.

Vafraðu um

Nafn:

Leir 7 ehf.

Farsími:

(+354) 8940425

Heimilisfang:

Aðalgata 20

Staðsetning:

Stykkishólmur

Um: