Leir 7

Icelandic ceramic Icelandic pottery

20.08.2010 09:02

Teboð


 
 
Leir 7 í Stykkishólmi setur nú á markað og kynnir tebolla í teboðum sem haldin verða dagana 21. og 28. ágúst n.k.

Leir 7 er fyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu á vöru úr leirnum frá Ytri-Fagradal á Skarðsstönd. Sigríður Erla Guðmundsdóttir stofnaði fyrirtækið árið 2007 í Stykkishólmi. Hún hefur um árabil unnið að tilraunum og tamningu leirsins sem er aðalhráefni í framleiðslunni. Það sem helst einkennir framleiðsluna er tenging við bragðlaukana. Fyrst ber að nefna leirpott sem tengist lambakjötinu og unnin er í samvinnu við hönnunarfyrirtækið Borðið. Leir 7 framleiðir sérstakan disk fyrir harðfisk sem hertur er hjá Friðborgu í Stykkishólmi. Jafnframt framleiðir fyrirtækið borðbúnað fyrir bláskel sem veidd er í Breiðafirði, tómataþroskara, kaffibolla og fleiri lystaukandi form.

Laugardaginn 21. og 28. ágúst n.k. kynna fjórir keramikhönnuðir bolla sem allir tengjast íslenskum jurtum og eru framleiddir af Leir 7. Elísabet Haraldsdóttir sýnir Aðalbláan sem sækir áhrif til bláberjalyngs, Kristín Ísleifsdóttir sýnir Birki, Ólöf Erla Bjarnadóttir sýnir Fífil og Sigríður Erla Guðmundsdóttir sýnir Hrút sem sækir áhrif til hrútaberja. Hugmynda- og hönnunarvinna var sameiginleg en Sigríður Erla hefur þróað fljótandi leirmassa úr leirnum frá Ytri-Fagradal, sem bollarnir eru framleiddir úr.
Hildigunnur Gunnarsdóttir er hönnuður umbúða á tebollunum.

Tebollarnir verða sýndir og kynntir ásamt sérblönduðu tei úr þeim fjórum jurtum sem sýndar eru á bollunum. Teið sem kynnt er undir nafninu Fagradalste er framleitt af Þóru Þórisdóttur myndlistarmanni sem rekur sprotafyrirtækið urta.islandica.

Kynningin ásamt teboði fer fram í Vatnasafninu í Stykkishólmi 21. ágúst kl. 15-17 og í Brúðuheimum í Borgarnesi
28. ágúst kl. 14-16

Allir eru velkomnir

Vafraðu um

Nafn:

Leir 7 ehf.

Farsími:

(+354) 8940425

Heimilisfang:

Aðalgata 20

Staðsetning:

Stykkishólmur

Um: